Þolir þú illa að borða feitan mat?

Finnur þú fyrir uppþembu, ógleði eða færð niðurgang eftir að hafa borðað feitan mat? Mögulega er gallflæðið ekki eins og best væri ákjósanlegt.

Truflað gallflæði getur valdið fjölbreyttum einkennum sem oft eru ranglega túlkuð sem IBS, hormónatruflanir eða „óútskýrð“ meltingaróþægindi.

Gallblaðran er lítið líffæri, staðsett undir lifrinni, sem gegnir mjög mikilvægu hlutverki í líkamanum. Hún tengist ekki aðeins meltingu heldur einnig kólesterólstjórnun, hormónajafnvægi, orku og almennri vellíðan.

 Margir tengja gallblöðruna eingöngu við gallsteina en skert starfsemi gallblöðru eða truflað gallflæði getur þó valdið fjölbreyttum einkennum sem oft eru ranglega túlkuð sem IBS, hormónatruflanir eða óútskýrð meltingaróþægindi.

Hvert er hlutverk gallblöðrunnar?

Gallblaðran geymir gall sem lifrin framleiðir og losar það út í smágirni þegar við borðum, sérstaklega fitu og prótein.

 

Gall:

  • Brýtur fitu upp í smáa dropa svo meltingarensím geti unnið á henni

  • Stuðlar að frásogi fituleysanlegra vítamína (A, D, E og K)

·        Hjálpar til við að losa umfram kólesteról

  • Hjálpar til við að skapa rétt sýrustig í smágirni svo meltingarensím virki eðlilega

  • Stuðlar að eðlilegu flæði í meltingarveginum

  • Vinnur gegn of miklum vexti óæskilegra baktería í meltingarvegi

 

Truflun á gallflæði

 

Skert gallflæði

Gall getur orðið þykkt án þess að gallsteinar séu til staðar. Slíkt getur truflað gallflæði, valdið fitumeltingarvanda og aukið líkur á gallsteinamyndun.

 

Skert frásog gallsýra

Eftir að gall hefur hjálpað til við að melta fitu þá eru gallsýrurnar teknar aftur upp í smáþörmunum og endurnýttar. Ef gallsýrur eru ekki teknar eðlilega upp í smáþörmunum berast þær í ristil þar sem þær geta valdið óþægindum.

 

Brottnám gallblöðru

Ef gallblaðran hefur verið fjarlægð heldur lifrin áfram að framleiða gall. Gallið flæðir þá stöðugt í stað þess að losna í skömmtum, sem getur leitt til truflunar á gallflæði.

 

Vísbendingar sem geta bent til truflana á gallflæði

·       Feitar, glansandi eða fljótandi hægðir

·       Ljósar eða gulleitar hægðir

·       Uppþemba eða ógleði eftir feita máltíð

·       Niðurgangur eða hægðatregða sem svarar illa trefjum

·       Einkenni tengd skertu frásogi A, D, E og K vítamíns

·       Orkuleysi

·       Hormónaójafnvægi

 

Gallbakflæði (bile reflux)

Í gallbakflæði flæðir gall í ranga átt og fer upp í maga og jafnvel vélinda. Einkenni geta líkst sýru-bakflæði en eru oft verri á fastandi maga og eiga það til að batna við að borða.

 

Hvað er til ráða?

 

Fita og prótein

Þegar fita og prótein berast í skeifugörn losar líkaminn hormónið cholecystokinin (CCK).

CCK veldur því að gallblaðran dregst saman og samstillir losun meltingarensíma. Mjög fitusnautt mataræði, eða að sleppa úr máltíðum getur því dregið úr gallflæði.

 

Ef um er að ræða truflun í gallflæði þá er ráðlagt að neyta fitu, en þó í hóflegu magni, eða eftir getu hvers og eins á meðan unnið er að því að unnið er að orsökum.

Auk þess að örva gallframleiðslu þá inniheldur prótein lífsnauðsynlegar amínósýrur (sérstaklega taúrín og glýsín) sem eru nauðsynlegar til að mynda gallsýrur. Fiskur, kjúklingur, egg og belgjurtir geta verið góður kostur.

 

Beisk fæða örvar gallflæði

Að neyta beiskrar fæðu, sérstaklega fyrir máltíðir, örvar flæði/tæmingu galls úr gallblöðru og hjálpar þannig til við að brjóta niður fæðuna. Þistilhjörtu, klettasalat, sellerí, grænt te og fíflarót örva lifrina til að framleiða meira gall á meðan engifer, hvítlaukur, ólífuolía og sítrusávextir örva flæði/tæmingu galls úr gallblöðru.

 

Trefjar

Trefjaríkur matur bindur gallsýruna í meltingarveginum og dregur úr endurupptöku. Lifrin notar þá meira kólesteról til að búa til nýjar gallsýrur sem getur stuðlað að lækkun kólesterólmagns í blóði og minnkað líkur á gallsteinum.

Grænmeti, ávextir, baunir, hnetur, fræ, psyllium husk og heilkorn geta verið góður kostur.

 

Fæðubótarefni

  • Meltingarensím: Lípasi til að styðja fitumeltingu á meðan unnið er að undirliggjandi orsökum.

  • Nauta gall (ox bile): Inniheldur gallsýru sem að bætir niðurbort fitu í smáþörmum hjá einstaklingum með skerta gallframleiðslu (ekki ráðlagt við stíflu í gallrásum eða þegar um er að ræða stóra gallsteina)

  • Fosfatidýlkólín (t.d. úr sója- eða sólblóma lecitini): styður við gæði galls.

  • Aminósýrur: Taúrín og glýsín styðja gallframleiðslu.

  • Beiskar jurtir í fæðubótaformi: Mjólkurþistill, fíflarót, grænt te, túrmerik og piparrót örva lifrina til að framleiða meira gall á meðan fíflablöð og piparmynta örva flæði/tæmingu galls úr gallblöðru.

  • Trefjabætiefni: Psyllium husk eða eplaspektín geta bundið umfram gall­sýrur og minnkað ertingu í meltingarvegi.

Previous
Previous

Áhrif ketó mataræðisins á einstaklinga með vanvirkan skjaldkirtil

Next
Next

Hvað er iðraólga (IBS)?